Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 287/2012

Mánudaginn 4. febrúar 2013

 

 

287/2012

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

Mál þetta úrskurða Guðmundur Sigurðsson læknir, Þuríður Árnadóttir lögfræðingur og Kristín Benediktsdóttir lektor.

 

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2012, kærir a, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða lífeyrisréttindi hennar vegna búsetu erlendis.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 8. ágúst 2012, að við endurskoðun á réttindum hennar hafi komið í ljós að búsetuhlutfall hafi ekki verið rétt skráð. Búsetuhlutfall hafi verið skráð 100% en í ljós hafi komið að rétt búsetuhlutfall eigi að vera 78,91%. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi, sem var veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. ágúst 2012, þar sem jafnframt var leiðrétt misritun á búsetuhlutfalli í fyrra bréfi stofnunarinnar úr 78,91% í 80,7%.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a. svo:

 

„Ég er íslenskur ríkisborgari, fædd x og uppalin í b. x flutti ég með fyrrverandi manni mínum (i) til d og var búsett þar í rúm fjögur ár eða til x. Ég hafði ekki vinnu í d en minn fyrrverandi var á atvinnumarkaði. Ég sjálf fékk einhverjar félagslegar bætur en þó ekki allan tímann og var tvisvar á fæðingarorlofi. Í gegnum bæturnar fór ég á e-námskeið og tvisvar send í fyrirtæki í nokkrar vikur (var þó ekki á launum heldur bara félagslegum bótum).

 

Búseta erlendis frá 16 ára aldri til örorku sem í mínu tilfelli er fjögur ár og fjórir mánuðir og tíu dagar. Ég fer á endurhæfingarlífeyri 01.10.2004 en var óvinnufær frá maí 2004. Tryggingastofnun vildi þá gefa mér þó örorku aftur í tímann eða frá 01.10.2003 (en ég var á sjúkradagpeningum 26.04.2004 til 15.11.2004). (Sendi yfirlit yfir þetta með sem fylgiskjal).

 

Tryggingastofnun skýrir mál sitt að frá örorkumati 1 október 2003 sé framreiknuð örorka. Miðað við búsetu í hvoru landi fyrir sig fyrir örorku. Ég var þó á vinnumarkaði á Íslandi alveg þar til ég veikist og fæ endurhæfingarlífeyri 01.10.2004 sem ég var á alveg til 28.02.2005 en þá gefa þeir mér afturvirka örorku (þá ætti búsetuhlutfall miðað við útreikning að vera allaveganna 88,95% samanber útreikning f hjá g). Væri þá ekki réttara að gera útreikninginn frá upphafi eða loka endurhæfingarlífeyris en ekki afturvirku örorkunni þar sem ég var í vinnu á Íslandi á tímabilinu? Síðan þá eru liðin nokkur ár og alltaf hef ég verið búsett í landinu en það er heldur ekki tekið tillit til, ég er Íslendingur og hef verið búsett hér allt mitt líf undantekin rúm fjögur ár (33 ár frá fæðingu)!

 

Einnig þætti mér gott að vita ef bótaréttur minn verður skertur á ég þá ekki rétt á að fá þetta endurreiknað þegar ég hef náð 40 ára búsetu í landinu frá 16 ára aldri? Jafnvel fengið þetta fyrr endurskoðað þegar ég er farin að hafa búið fleiri ár hér á Íslandi en útreikning TR hljóðar upp á.

 

Ég hef MS og því er sagan um köst mun lengri og hægt er að rekja köst til unglingsáranna áður en ég flyt til d og því þætti mér eðlilegt að afturvirk örorka ætti að miðast við þann tíma en ekki 1. október 2003 og búsetuhlutfall væri þá hægt að reiknað út frá því. Ég sendi með afrit af læknaskýrslum. Ég byrja strax x ára að missa lappirnar undan mér og hrynja niður. Svo fer ég að dofna upp og missa mátt en mér tókst því miður ekki að skýra þetta nógu vel fyrir þáverandi heimilislækni mínum. Einnig þjáðist ég af x á þessum tíma, einnig var ég vör við svima. Sjá má þetta í læknaskýrslum frá x til x. Árið x í d verð ég mjög slæm að svima og hefur hann þjáð mig síðan. Ég hef verið hjá h taugalækni og hefur hún fylgt mér eftir síðan 2004.

 

[…]

 

Í lögum um almannatryggingar nr. 100 síðan 2007 sé ég ekki annað en að ég uppfylli 17. og 18. gr. laga til að fá reiknaða út 100% búsetu.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 4. september 2012, eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Í greinargerð stofnunarinnar, dags. 9. október 2012, segir svo:

 

„Kærð er á breytingu á hlutfalli búsetuskerðingar örorkulífeyris.

 

Heimild til greiðslu örorkulífeyri byggist á 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (ATL).  Þar segir í 1. og 4. mgr.:

Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:

  1. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,
  2. b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

...

Fullur örorkulífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

 

Í 1. mgr. 17. gr. segir:

Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

 

Í 1. mgr. 68. gr. segir:

Heimilt er ríkisstjórninni að semja við erlend ríki og [hlutaðeigandi ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggingar veita. Í slíkum samningum má m.a. kveða svo á að búsetutímabil, atvinnutímabil eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi, hvort sem um er að ræða íslenska þegna eða þegna annarra samningsríkja. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna samkvæmt almannatryggingalögum við búsetu í öðru samningsríki, sbr. 17. og 58. gr.

 

Ísland hefur gert samning um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggingar veita með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn), sbr. lög nr. 2/1993.  Á grundvelli samningsins ber að taka tillit til ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa.  Í 52. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um útreikning bóta einstaklings sem hefur áunnið sér tryggingaréttindi í fleiri en einu samningsríki.

 

Kærandi hafði fengið 100% örorkulífeyrisgreiðslur hér á landi.  Við endurskoðun á réttindum hennar komu í ljós að fyrir upphaf örorku hafði verið um að ræða um búsetu í í d á tímabilinu x– x, þ.e. í rúm 4 ár. 

 

Með bréfi dags 8. ágúst 2012 var tilkynnt um leiðréttingu á búetuhlutfallinu úr 100 í 78,91% sem myndi taka gildi 1. október og jafnframt var bent á hugsanlegan rétt til lífeyrisgreiðslna frá d.  Með bréfinu fylgdi eyðublað vegna umsóknar um lífeyri frá d sem skyldi skilað til Tryggingastofnunar sem myndi senda hana til d.

 

Beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðuninni dags. 9. ágúst var svarað með bréfi dags. 16. ágúst.  Þar var gerð grein fyrir þeim reglum sem gilda um réttindaákvörðun og hlutfallslega skiptingu réttinda einstaklinga sem hafa búið í fleiri en einu EES-landi.  Jafnframt var tilkynnt um breytingu á leiðréttu búsetuhlutfalli úr 78,91% í 80,7%.

 

Umsókn um lífeyris frá öðru EES-ríki barst frá kæranda 21. ágúst og hefur verið send áfram til d.  Kærandi mun í framhaldi af því væntanlega fá örorkulífeyrisgreiðslur frá d sem koma á móti skerðingu greiðslna hér á landi.

 

Leiðrétting á greiðsluhlutfalli örorkulífeyris kæranda er í fullu samræmi við þær reglur um hlutfallslega greiðslu lífeyris á grundvelli áunninna tryggingaréttinda í fleiri en einu aðildarríki sem Ísland er bundið af á grundvelli EES-samningsins“

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 10. október 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Kærandi sendi úrskurðarnefnd athugasemdir með bréfum, dags. 26. október og 12. nóvember 2012, þar sem hún bendir m.a. á að ólíklegt sé að hún fái bætur frá d og ef svo yrði þá myndu þær skerða þær bætur sem hún fái frá Tryggingastofnun.

 

Athugasemdir kæranda voru sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfum, dags. 29. október og 13. nóvember 2012. Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. desember 2012, er greint frá því að örorkulífeyrir kæranda í d sem byggist á búsetu þar í landi myndi ekki hafa áhrif á tekjuútreikning örorkulífeyris frá Tryggingastofnun. Viðbótargreinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. desember 2012. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar skerðingu Tryggingastofnunar ríkisins á örorkulífeyrisgreiðslum til kæranda vegna búsetu erlendis.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hún sé íslenskur ríkisborgari en hafi búið í d í rúm fjögur ár með fyrrverandi manni sínum. Kærandi hafi farið á endurhæfingarlífeyri þann 1. október 2004 en verið óvinnufær frá maí 2004. Tryggingastofnun hafi veitt henni örorku aftur í tímann frá 1. október 2003. Kærandi telur réttara að gera útreikning á búsetuhlutfalli frá upphafi eða lokum endurhæfingarlífeyris en ekki afturvirku örorkunni þar sem hún hafi verið í vinnu á Íslandi á tímabilinu.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi hafi fengið 100% örorkulífeyrisgreiðslur en við endurskoðun á réttindum hennar hafi komið í ljós búseta í d í rúm fjögur ár. Kæranda hafi verið tilkynnt um leiðréttingu á búsetuhlutfallinu og umsókn kæranda um lífeyri frá öðru EES-ríki hafi verið áframsend til d. Kærandi muni í framhaldi af því væntanlega fá örorkulífeyrisgreiðslur frá d sem komi á móti skerðingu greiðslna hér á landi. Loks er tekið fram að leiðrétting á greiðsluhlutfalli örorkulífeyris kæranda sé í fullu samræmi við þær reglur um hlutfallslega greiðslu lífeyris á grundvelli áunninna tryggingaréttinda í fleiri en einu aðildarríki sem Ísland sé bundið af á grundvelli EES-samningsins.

 

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.  Í 1. mgr. 18. gr. segir að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem eru á aldrinum 16-67 ára og hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka áður en umsókn var lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu. Í 4. mgr. 18. gr. segir að örorkulífeyrir skuli greiðast eftir sömu reglum og ellilífeyrir. Við ákvörðun á búsetutíma skuli reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

 

Í 1. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, sem vísað er til í 4. mgr. 18. gr. laganna, segir:

 

„Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera […] kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

 

Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum koma fullar greiðslur örorkulífeyris og tekjutryggingar því aðeins til álita að um búsetu í a.m.k. 40 almanaksár sé að ræða frá 16 til 67 ára aldurs framreiknað í samræmi við 4. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu nýtur kærandi skertra lífeyrisréttinda því hún uppfylli ekki búsetuskilyrðin að fullu vegna búsetu erlendis á þessu tímabili. Samkvæmt gögnum málsins bjó kærandi erlendis frá x til x. Samanlagður búsetutími hennar hér á landi eftir 16 ára aldur þar til hún hóf töku lífeyris þann 1. október 2003 eru því 7 ár, 6 mánuðir og 13 dagar. Samanlagður búsetutími kæranda erlendis eru 4 ár, 4 mánuðir og 11 dagar. Samkvæmt útreikningi Tryggingastofnunar eru framreiknuð búsetuár kæranda hérlendis samanlagt 32,31 ár og á hún því rétt á 80,79% greiðsluhlutfalli örorkulífeyris samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Samkvæmt framangreindum útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins er búsetutími kæranda frá örorkumati fram að 67 ára aldri reiknaður í sama hlutfalli og búsetutíminn frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkumats. Stofnunin hefur hins vegar um árabil túlkað ákvæði 18. gr. almannatryggingalaga með þeim hætti að við útreikning búsetutíma skuli reikna tímann frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri að fullu sem búsetutíma hér á landi. 

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur nú þegar úrskurðað um þessa breyttu réttarframkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. úrskurð í máli nr. 221/2009. Eins og þar kemur fram er það mat úrskurðarnefndar að þessi breytta réttarframkvæmd og lögskýring af hálfu Tryggingastofnunar fái ekki beina stoð í orðalagi 18. gr. almannatryggingalaga. Engar lagabreytingar hafa átt sér stað sem kalla á hina nýju framkvæmd stofnunarinnar. Þessi breytta framkvæmd er verulega íþyngjandi fyrir bótaþega og kollvarpar væntingum bótaþega um greiðslur. Telur úrskurðarnefndin ekki málefnalegt án skýrra lagafyrirmæla að breyta með svo íþyngjandi hætti þeirri framkvæmd á greiðslu örorkulífeyris sem ríkt hefur um langt árabil.

 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er varðar búsetuhlutfall við útreikning á fjárhæð lífeyrisgreiðslna til handa kæranda skuli hnekkt. Rétt þykir að vísa  málinu til Tryggingastofnunar að nýju til ákvörðunar á lífeyrisrétti kæranda.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um skerðingu lífeyrisgreiðslna a, er felld úr gildi og málinu vísað til Tryggingastofnunar ríkisins til fyllri meðferðar.

 

 

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Þuríður Árnadóttir lögfræðingur

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum